Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Framsókn viðurkennir hagsmunaárekstur

Margir talsmenn Framsóknarflokksins hafa í dag og í gær viðurkennt að vissulega var forsætisráðherra í bullandi hagsmunaárekstri þegar ríkisstjórn hans hafði umsjón með samningum við kröfuhafa þrotabúa bankanna samtímis því að eiginkona hans átti kröfur í þrotabú bankanna þriggja uppá hálfan milljarð. Kröfurnar námu umtalsverðum hluta af uppgefnum eignum þeirra hjóna svona hér um bil þriðjungi af skráðum eignum þeirra.

Þetta sagði t.d. aðstoðarmaður ráðherrans Jóhannes Þór Skúlason í frétt mbl í gær:

Sé enn­frem­ur skoðuð sú stefna sem Sig­mund­ur Davíð hafi keyrt gagn­vart  kröfu­höf­um bank­anna, þá er lítið greitt upp í al­menn­ar kröf­ur og það eigi það við um kröfu henn­ar eins og annarra.

Þarna kallar Jóhannes Þór Sigmund Davíð höfund þeirrar stefnu sem lá að baki samningunum við kröfuhafana, meðal annars eiginkonu ráðherrans.

 

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi flokksins í Reykjavík sagði þetta:

Sigmundur fór hins vegar í það að rýra eignir kröfuhafanna sem mest og þar með eiginkonu sinnar í leiðinni í almannaþágu. [...] Hann sagði nei við Icesave, hann lækkaði skuldir heimilanna og hann sótti fé til kröfuhafanna.

Líkt og Jóhannes Þór lýsir Guðfinna samningunum við kröfuhafa nánast sem persónulegri vegferð og sigurgöngu Sigmundar Davíðs.

 

Einn ötulasti talsmaður ríkisstjórnarinnar, bloggarinn og sögukennarinn Páll Vilhjálmsson, segir svo þetta:

Enginn gekk eins hart fram að leggja skatt á kröfuhafa föllnu bankanna og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins. [...] Eigum við ekki að þakka fyrir að eiga forsætisráðherra sem tekur hagsmuni ríkisins fram yfir persónulegan ábata?

Aftur er Sigmundi lýst sem hetjunni sem nánast eins síns liðs sótti peninga til kröfuhafa. (Reyndar er söguskoðun Páls eins og endranær broguð, það var jú bara kynntur skattur, en skatturinn kom ekki til framkvæmda því þess í stað stóð kröfuhöfum til boða uppgjör með svokölluðu stöðugleikaframlagi sem var mun hagstæðara en hinn boðaði skattur.)

 

Þessir stuðningsmenn Sigmundar Davíðs sjá og viðurkenna hið augljósa, að hér var á ferð augljós og verulegur hagsmunaárekstur, persónulegir hagsmunir ráðherrans gengu þvert á þá hagsmuni sem hann var að verja í samningunum við kröfuhafa sem æðsti embættismaður ríkisins. (Og munum að fjárhagur konu hans er vissulega hans hagsmunir líka, hvað sem líður séreignum og kaupmálum.)

En Framsóknarfólkið vill að við trúum því að Sigmundur hafi tekið þjóðarhagsmuni fram yfir eigin hagsmuni og látið sig engu varða hvort hann og kona hans yrðu einhverjum tugum eða hundruðum milljóna ríkari eða fátækari.

Nú ætla ég alls ekki að halda því fram að Sigmundur hafi reynt að haga samningum þannig að kona hans myndi halda eftir meiri eignum en ella. Reyndar held ég að það sé orðum aukið að hann hafi sjálfur rissað upp þær leiðir sem farnar voru, en hann var auðvitað í forsvari fyrir þá ríkisstjórn sem bar ábyrgð á samningunum.

 

TVENNT skiptir hér mestu máli:

í fyrsta lagi, ef kjörinn fulltrúi eða embættismaður er vanhæfur vegna hagsmunaáreksturs skiptir ekki máli hvort viðkomandi beitir sér í eigin þágu, hagsmunaáreksturinn er til staðar hvort sem hann veldur óeðlilegri afgreiðslu eða ekki. Viðkomandi nýtur ekki óskoraðs trausts til verkefnisins. Sér í lagi ef hann hefur vísvitandi leynt hagsmunum sínum. 

Í öðru lagi, forsætisráðherra hélt þessum persónulegu fjárhagslegu hagsmunum sínum leyndum. Hann gaf ekki samstarfsfólki sínu, kjósendum sínum eða okkur umbjóðendum sínum kost á að meta hvort þessi hagsmunaáresktur myndi að okkar mati valda vanhæfi ráðherrans til að leita til lykta eitt stærsta fjárhagslega uppgjörsmál þjóðarinnar fyrr og síðar.

 

vulture-man

Vulture Man - með vængi úr lógói FRamsóknarflokksins

 


Enn er óvissa

Enn er óvissa um mörg stór mál í framtíð þjóðarinnar. Margir vilja umbylta stjórnarskránni, óvissa er um skian gjaldeyrismála til lengri tíma, og Icesave málið er enn óleyst. Það væri því einstaklega óábyrgt af Ólafi Ragnari Grómssyni að gefa ekki kost sér fimmtakjörtímabilið, næsta vor. Slík eigingjörn hegðun væri ólík þessum leiðtoga landsins og líkast því að foreldri myndi skilja eftir börnin sín eftir ein úti í óvissu.

hetjur

Þjóðarhetjur, Jón og Ólafur.


Svar til Valdimars Jóhannessonar

Valdimar Jóhannesson heitir bloggari sem hefur gert margt og merkilegt á lífsleiðinni, en er nú helst upptekinn við að vara okkur við Íslam, sem hann segir vera stórhættulega hugmyndafræði sem snúist um mannvonsku og heimsyfirráð. Ég skrifaði stutt komment við nýjasta pistil Valdimars, en hann vill ekki birta kommentið þó svo oft áður hef ég kommenterað hjá honum og við skipst á orðsendingum í mesta bróðerni. En Valdimar gerði mér þann greiða að endursenda mér kommentið í tölvupósti, svo hér er það birt, í aðeins lengri útgáfu. 

Valdimar hefur sagt fullum fetum að við þurfum að verjast innrás íslam hingað, sem sé "skipulagt jihad til þess að ná Íslandi undir íslam og sharíalög". Valdimar tekur mjög eindregna afstöðu í þrálátum átökum Ísraela og Palestínumanna, Ísraelsmenn eru góðir, sannleikurinn þeirra megin, Palestínumennirnir stjórnað af ofsatrúuðum hryðjuverkamönnum.

Valdimar hefur í fjölda bloggpistla rifjað upp sögu Íslam, sem hann telur vera samfellda árás á kristni.

Valdimar telur ekki að Íslam sé eins og hver önnur trúarbrögð, heldur beri að BANNA Íslam, sem sé einhverskonar ofbeldishugmyndafræði. 

====

Valdimar lítur ekki til þess að í heiminum búa nú svona ca. 1400 milljónir múslima. Tæplega einn og hálfur milljarður. Varla eru þeir allir VONDIR?  Ofurseldir ILLRI hugmyndafræði?

Og stóra spurningin er: HVAÐ vill Valdimar? Hver er LAUSNIN?  Lýsa yfir stríði við alla múslima??

Því Valdimar virðist telja útilokað að lifa í sátt og samlyndi með múslimum.

Reyndar held ég að ein rót öfgafullrar umræðu margra/sumra múslima í garð Vesturlanda er að þeir UPPLIFA eins og Vesturlöndin SÉU nú þegar í stríði við íslam og múslímsk lönd. Þeir heyra raddir öfgamanna eins og Valdimars, hatrið og óvildina. Og margir í hinni fylkingunni, hinum megin við víglínu Valdimars sem aðskilur okkur "kristnu Vesturlandabúana" frá "hinum" tala NÁKVÆMLEGA EINS og Valdimar. Hatrið er gagnkvæmt, eiturpílurnar ganga í báðar áttir.

Það má reyndar til sanns vegar færa að á liðnum 100 árum, og þarf ekki að fara svo langt aftur, hafa Vesturlönd (+Sovét) ráðist inn í, steypt af stóli valdhöfum, stutt grimma einræðishöfðingja, og almennt haft miklu meiri afskipti af ríkjum múslima, heldur en ríki múslima hafa haft gagnvart Vesturlöndum. Ungur róttækur reiður öfgamaður frá Írak upplifir að Vesturlönd séu í stríði við sig. Hefur hann rangt fyrir sér??

Er Valdimar ósammála því?

(Og hvaðan kemur þetta tal Valdimars um að múslímar séu að leggja undir sig heiminn? Hvað eru margir íslamskir trúboðar sem banka á dyrnar hjá okkur? Eða annars staðar í heiminum? Voru það múslímskir trúboðar sem fóru um allan heim á 19. og 20. öld? Voru það múslímsk ríki sem skiptu á milli sín heimsálfum á 19. öld, eins og að útdeila kökusneiðum, og bjuggu til landamæri með reglustiku?)

Hættan er sú að við leyfum Valdimar og skoðanasystkinum hans hér OG í ríkjum múslima að magna upp ótta, hatur og stríðstal.

Múslímar eru FÓLK EINS OG VIÐ. Þeir hafa í aðalatriðum sömu þrár, vonir og væntingar, þrá hamingju og ást og vilja lifa í sátt og samlyndi með fjölskyldu og vinum, sjá börn sín vaxa úr grasi, lifa við öryggi og eygja von um betri framtíð.

En við skulum ekki banna Valdimar. Nei, svörum honum fullum hálsi. Því hann hefur rangt fyrir sér. Friðurinn og vináttan þarf að sigra hatrið.



Kynþáttahyggja á moggabloggi

Það eru hinsvegar mannréttindi kynborinna Íslendinga að halda landi sínu hreinu

 

Halldór Jónsson, Moggabloggari, 8.10.2014. 


Málpípa Moggans vill trúarlögreglu

Páll Vilhjálmsson, einn einarðasti stuðningsmaður afturhalds-þjóðernis-Moggaklíku stjórnarflokkanna vill krefja þingmenn um skýringar, ef þeir mæta ekki í messu hjá lútersk-evangelísku trúfélagi áður en Alþingi er sett. Um þessa þingmenn skrifar Páll:

Þeir þingmenn sem hafna siðvenjum alþingis Íslendinga hljóta að gera grein fyrir siðleysi sínu.

 

Það er löng hefð fyrir því að þingmenn (flestir), Forseti og biskup mæti til sérstakrar messu í Dómkirkjunni rétt á undan þingsetningu. Þessi hefð á rætur til að rekja þess tíma þegar ekki ríkti trúfrelsi og kristni var skilgreind af ríkisvaldinu sem hin lögboðna trú þegna þessa lands.

Síðan hefur margt breyst. Nú ríkir hér trú- og skoðanafrelsi. Mönnum er frjálst að hafa hvaða trúarlegu skoðanir sem þeir kjósa og haga lífi sínu í samræmi við það.

Það er ekki hægt að skylda neinn til að taka þátt í trúarlegum athöfnum.

Þess vegna vekur það óhug þegar Páll Vilhjálmsson atvinnubloggari leggur beint og óbeint til sérstaka trúarskoðanalögreglu.  

Páll, ef þú vilt búa í svoleiðis ríki ættirðu að flytja til Íran. 

 


Morðingjar í menntaskóla!?

Ég horfði í vikunni á svokallaðan árshátíðarannál Menntaskólans við Sund frá liðnu vori. Tæplega hálftíma myndband með ýmsum atriðum, eftir myndbandaklúbb skólans.

 Þvílíkt og annað eins.

Mér rann kallt vatn milli skinns og hörunds.Myndin byrjar á löngu atriði þar sem óeinkeinnisklæddir lögreglumenn rannsaka morð. Í ljós kemur að fórnarlambið er jarðfræðikennari menntaskólans að því er virðist. Svo er sýnd árásin á kennarann, þar sem grímuklæddir menn ryðjast inn og ráðast á manninn og brjóta allt og bramla.

Ég bara spyr, er þetta í lagi?

Myndbandið frá Menntaskólanum við Sund er ofbeldismyndband. Segjum hlutina eins og þeir eru. Þarna er morð og ofbeldi notað til þess að auglýsa skemmtun. Eru ekki einhverjar viðvörunarbjöllur farnar að hringja? Við upplifðum hér hið svokallaða hrun. Hvað er þetta þá? Morðhrun?

Hvað finnst okkur um það að ungum karlmönnum í menntaskóla finnist það bara í lagi að MYRÐA kennarana sína, að grínast með mannsmorð? Verðum við ekki að fara að taka í taumana? Eiga jarðfræðikennarar að þurfa að búa við stöðugum ótta um líf sitt? Bera ungir karlmenn nú til dags enga virðingu fyrir lífinu?!

 


Sannleikurinn um verðtryggð lán

er sá að ef lántakandi greiðir alltaf hvern greiðsluseðil samviskusamlega, þá hverfur lánið og verður að fullu greitt í lok lánstímans. 0 kr eftirstöðvar. Og lántakandinn getur þá átt skuldlaust þá eign sem hann fékk lán til að kaupa.

Húrra!

ÉG er lukkunnar pamfíll og lífið leikur við mig!

Ég keypti stóran flottan LandCruiser jeppa 2007 á 100% myntkörfuláni, 50/50 Yen/sviss frankar. Nýr svona jeppi hefur tvöfaldast í verði. Ég gæti kannski selt jeppann nú þriggja ára gamlan fyrir hærra verð en ég keypti hann á og komið út í hagnaði!

ÉG starfa sem háseti á góðum togara, svo laun mín eru að talsverðu leyti gengistryggð og eru miklu hærri nú en 2007, annars hefði ég ekki tekið áhættu með svona stórt lán, maður er nú ekki algjör sökker!  :-)

En nú vænti ég þess að lánið a.m.k. helmingast, og vona bara að ég fá að halda áfram að greiða ofurlága vexti, neikvæða raunvexti, þau fimm ár sem eftir eru af láninu.

Maður hefur nú splæst í kampavín af minna tilefni!

myntkörfujeppi

Ég elska myntkörfujeppann minn!


Skýrslan, Icesave og ábyrgð þjóðar

Þetta svar setti ég inn sem athugasemd á síðu Guðmundar Ásgeirssonar, þar sem fram komu upphrópanir og hneysklun á yfirlýsingu stjórnvalda frá 7.4.2010 til AGS um að Ísland muni standa við Icesave skuldbindingar:Það kemur nákvæmlega ekkert á óvart í þessari yfirlýsingu. Það hefur alltaf staðið til að Ísland standi við þessar skuldbindingar. Ég held líka að mikill meirihluti þingmanna allra flokka, nema kannski Hreyfingarinnar, styðji það.

 Ef fólk ætlar áfram að baula að "Ísland ber enga ábyrgð á Icesave", þá hvet ég nú fólk til að lesa vandlega þá kafla skýrslunnar sem fjalla um Icesave.Það er bara alveg klárt að íslensk stjórnvöld geta ekkert skotið sér undan ábyrgð.

Íslensk stjórnvöld:

a) létu hjá líðast að ýta á LÍ að flytja Icesave í dótturfélag (en Bretar ýttu mjög á þetta snemma árs 2008!)

b) FME nánast bara tók undir óskir LÍ í samskiptum við FSA í Bretlandi að fá að fresta sem lengst slíkum flutningi

c) Íslensk stjórnvöld meðvitað LEIÐA HJÁ SÉR árin 2007 og 2008 að skoða það hvernig TIF eigi að geta brugðist við greiðslufalli á þessu ört stækkandi innlánasafni.d) Seðlabankinn greinilega umgengst LÍ með silkihönskum, gangstætt t.d. meðhöndlun á Glitni. Kannski af því Lí var jú uppáhaldsbanki xD og yfir gagnrýni hafinn?

d) Í mars 2008 þegar gert var "míní"-áhlaup á Landsbankann hefði HEIÐVIRÐ stjórnvöld geta komið þeim skilaboðum til Bretlands að þau myndu EKKI tryggja lágmark á Icesave, ef það var raunveruleg stefna. Það gerðu þau ekki. Það var ALDREI gefið annað í skyn en að staðið yrði við þetta lágmark, og LÍ sagði það ítrekað í fjölmiðlum í Bretlandi og stóð skýrum stöfum á heimasíðu Icesave. Gerði FME eða eitthvert stjórnvald athugasemd við það? Nei.

e) Í ljósi atburða (og ekki-atburða) 2008 voru viðbrögð Breta og beiting "freezing orders" í raun bara ósköp skiljanleg. Bretar höfðu m.a. spurt Seðlabanka Íslands um það um vorið 2008 hvort rétt væri að Icesave peningar streymdu allir til Íslands (í bankann hér). SÍ svaraði þessu með því að grípa til varna fyrir LÍ og kannaði þetta ekkert frekar.

f) Íslensk stjórnvöld gera ENGAR athugasemdir þegar LÍ fer af stað með Icesave í Hollandi í maí 2008, sm skýrslan sé með öllu "óskiljanlegt" að það skuli hafa verið gert.

Margt fleira mætti nefna. Lesið vel 17., 18. og 19. kafla skýrslunnar, í bindum 5 og 6.Staðreynd málsins er að Landsbankinn ryksugaði til sín peninga venjulegra sparifjáreigenda til að lengja líf bankans, peningarnir fóru svo beint í hít glæpamanna, Björgólfs, Baugs o.fl. Íslensk stjórnvöld gerðu ekki neitt.

Þessi stjórnvöld voru LÝÐRÆÐISLEGA KJÖRIN af okkur sem þjóð, þess vegna getum við sem þjóð - því miður - ekki firrt okkur ábyrgð á allri þessari hrikalegu röð mistaka og skorti á athöfnum og viðbrögðum.En og aftur, lesið skýrsluna!


Væri 'JÁ' sterkari og betri skilaboð til umheimsins?

Margir virðast halda að þessi atkvæðagreiðsla snúist um að senda skilaboð til umheimsins, og þar með kannski bæta samningsstöðu Íslands.

Mun afdráttarlaust 'NEI' styrkja verulega samningsstöðu okkar? Er það víst? Ef Bretum og Hollendingum finnst það einfaldlega sanngjarnara að við eigum að borga þetta lágmark og fjármögnunarkostnað sem af þessu láni hlýst, af hverju ætti þjóðaratkvæðagreiðsla að breyta afstöðu þeirra?

Gæti kannski verið að sterkt og ótvírætt 'JÁ' væri enn betri skilaboð til umheimsins, sem þjóni okkar "málstað betur til lengri tíma litið ?Að sjálfsögðu vilja Íslendingar að fólk geti treyst Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum, þar á meðal íslenskum bönkum. Við viljum ekki fá okkur stimpil sem Nígeríusvindlarar Norðursins.

Hvernig vinnum við helst gegn þess konar viðhorfum? Hvernig sýnum við umheiminum að okkur hafi ekki staðið á sama um 300.000 sparifjáreigendur sem gerðu þau reginmistök að treysta 120 ára gömlum íslenskum banka, sem gerði út á hreina og óspillta ímynd Íslands, traust og heiðarleika þjóðarinnar?

'JÁ' myndi hugsanlega bara liðka til fyrir samninganefndinni, að ná hagstæðari samningum og lægri vaxtabyrði. Ef umheimurinn er á annað borð að hlusta - sem ég held að sé ofmetið - þá væru þetta skilaboð sem geta bætt stöðu okkur meira til lengri tíma litið. Okkur er annt um orðspor okkar.

Íslandi má treysta!

 


Næsta síða »

Um bloggið

Pælingar

Höfundur

Skeggi Skaftason
Skeggi Skaftason
Frjálslyndur og fróðleiksþyrstur lífsspekingur.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • vulture-man
  • hetjur
  • dracula
  • Screen shot 2013-09-22 at 3.47.46 PM
  • Screen shot 2013-09-22 at 3.38.15 PM

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband