Framsókn viðurkennir hagsmunaárekstur

Margir talsmenn Framsóknarflokksins hafa í dag og í gær viðurkennt að vissulega var forsætisráðherra í bullandi hagsmunaárekstri þegar ríkisstjórn hans hafði umsjón með samningum við kröfuhafa þrotabúa bankanna samtímis því að eiginkona hans átti kröfur í þrotabú bankanna þriggja uppá hálfan milljarð. Kröfurnar námu umtalsverðum hluta af uppgefnum eignum þeirra hjóna svona hér um bil þriðjungi af skráðum eignum þeirra.

Þetta sagði t.d. aðstoðarmaður ráðherrans Jóhannes Þór Skúlason í frétt mbl í gær:

Sé enn­frem­ur skoðuð sú stefna sem Sig­mund­ur Davíð hafi keyrt gagn­vart  kröfu­höf­um bank­anna, þá er lítið greitt upp í al­menn­ar kröf­ur og það eigi það við um kröfu henn­ar eins og annarra.

Þarna kallar Jóhannes Þór Sigmund Davíð höfund þeirrar stefnu sem lá að baki samningunum við kröfuhafana, meðal annars eiginkonu ráðherrans.

 

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi flokksins í Reykjavík sagði þetta:

Sigmundur fór hins vegar í það að rýra eignir kröfuhafanna sem mest og þar með eiginkonu sinnar í leiðinni í almannaþágu. [...] Hann sagði nei við Icesave, hann lækkaði skuldir heimilanna og hann sótti fé til kröfuhafanna.

Líkt og Jóhannes Þór lýsir Guðfinna samningunum við kröfuhafa nánast sem persónulegri vegferð og sigurgöngu Sigmundar Davíðs.

 

Einn ötulasti talsmaður ríkisstjórnarinnar, bloggarinn og sögukennarinn Páll Vilhjálmsson, segir svo þetta:

Enginn gekk eins hart fram að leggja skatt á kröfuhafa föllnu bankanna og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins. [...] Eigum við ekki að þakka fyrir að eiga forsætisráðherra sem tekur hagsmuni ríkisins fram yfir persónulegan ábata?

Aftur er Sigmundi lýst sem hetjunni sem nánast eins síns liðs sótti peninga til kröfuhafa. (Reyndar er söguskoðun Páls eins og endranær broguð, það var jú bara kynntur skattur, en skatturinn kom ekki til framkvæmda því þess í stað stóð kröfuhöfum til boða uppgjör með svokölluðu stöðugleikaframlagi sem var mun hagstæðara en hinn boðaði skattur.)

 

Þessir stuðningsmenn Sigmundar Davíðs sjá og viðurkenna hið augljósa, að hér var á ferð augljós og verulegur hagsmunaárekstur, persónulegir hagsmunir ráðherrans gengu þvert á þá hagsmuni sem hann var að verja í samningunum við kröfuhafa sem æðsti embættismaður ríkisins. (Og munum að fjárhagur konu hans er vissulega hans hagsmunir líka, hvað sem líður séreignum og kaupmálum.)

En Framsóknarfólkið vill að við trúum því að Sigmundur hafi tekið þjóðarhagsmuni fram yfir eigin hagsmuni og látið sig engu varða hvort hann og kona hans yrðu einhverjum tugum eða hundruðum milljóna ríkari eða fátækari.

Nú ætla ég alls ekki að halda því fram að Sigmundur hafi reynt að haga samningum þannig að kona hans myndi halda eftir meiri eignum en ella. Reyndar held ég að það sé orðum aukið að hann hafi sjálfur rissað upp þær leiðir sem farnar voru, en hann var auðvitað í forsvari fyrir þá ríkisstjórn sem bar ábyrgð á samningunum.

 

TVENNT skiptir hér mestu máli:

í fyrsta lagi, ef kjörinn fulltrúi eða embættismaður er vanhæfur vegna hagsmunaáreksturs skiptir ekki máli hvort viðkomandi beitir sér í eigin þágu, hagsmunaáreksturinn er til staðar hvort sem hann veldur óeðlilegri afgreiðslu eða ekki. Viðkomandi nýtur ekki óskoraðs trausts til verkefnisins. Sér í lagi ef hann hefur vísvitandi leynt hagsmunum sínum. 

Í öðru lagi, forsætisráðherra hélt þessum persónulegu fjárhagslegu hagsmunum sínum leyndum. Hann gaf ekki samstarfsfólki sínu, kjósendum sínum eða okkur umbjóðendum sínum kost á að meta hvort þessi hagsmunaáresktur myndi að okkar mati valda vanhæfi ráðherrans til að leita til lykta eitt stærsta fjárhagslega uppgjörsmál þjóðarinnar fyrr og síðar.

 

vulture-man

Vulture Man - með vængi úr lógói FRamsóknarflokksins

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Pælingar

Höfundur

Skeggi Skaftason
Skeggi Skaftason
Frjálslyndur og fróðleiksþyrstur lífsspekingur.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • vulture-man
  • hetjur
  • dracula
  • Screen shot 2013-09-22 at 3.47.46 PM
  • Screen shot 2013-09-22 at 3.38.15 PM

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband