Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Framsókn viðurkennir hagsmunaárekstur

Margir talsmenn Framsóknarflokksins hafa í dag og í gær viðurkennt að vissulega var forsætisráðherra í bullandi hagsmunaárekstri þegar ríkisstjórn hans hafði umsjón með samningum við kröfuhafa þrotabúa bankanna samtímis því að eiginkona hans átti kröfur í þrotabú bankanna þriggja uppá hálfan milljarð. Kröfurnar námu umtalsverðum hluta af uppgefnum eignum þeirra hjóna svona hér um bil þriðjungi af skráðum eignum þeirra.

Þetta sagði t.d. aðstoðarmaður ráðherrans Jóhannes Þór Skúlason í frétt mbl í gær:

Sé enn­frem­ur skoðuð sú stefna sem Sig­mund­ur Davíð hafi keyrt gagn­vart  kröfu­höf­um bank­anna, þá er lítið greitt upp í al­menn­ar kröf­ur og það eigi það við um kröfu henn­ar eins og annarra.

Þarna kallar Jóhannes Þór Sigmund Davíð höfund þeirrar stefnu sem lá að baki samningunum við kröfuhafana, meðal annars eiginkonu ráðherrans.

 

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi flokksins í Reykjavík sagði þetta:

Sigmundur fór hins vegar í það að rýra eignir kröfuhafanna sem mest og þar með eiginkonu sinnar í leiðinni í almannaþágu. [...] Hann sagði nei við Icesave, hann lækkaði skuldir heimilanna og hann sótti fé til kröfuhafanna.

Líkt og Jóhannes Þór lýsir Guðfinna samningunum við kröfuhafa nánast sem persónulegri vegferð og sigurgöngu Sigmundar Davíðs.

 

Einn ötulasti talsmaður ríkisstjórnarinnar, bloggarinn og sögukennarinn Páll Vilhjálmsson, segir svo þetta:

Enginn gekk eins hart fram að leggja skatt á kröfuhafa föllnu bankanna og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins. [...] Eigum við ekki að þakka fyrir að eiga forsætisráðherra sem tekur hagsmuni ríkisins fram yfir persónulegan ábata?

Aftur er Sigmundi lýst sem hetjunni sem nánast eins síns liðs sótti peninga til kröfuhafa. (Reyndar er söguskoðun Páls eins og endranær broguð, það var jú bara kynntur skattur, en skatturinn kom ekki til framkvæmda því þess í stað stóð kröfuhöfum til boða uppgjör með svokölluðu stöðugleikaframlagi sem var mun hagstæðara en hinn boðaði skattur.)

 

Þessir stuðningsmenn Sigmundar Davíðs sjá og viðurkenna hið augljósa, að hér var á ferð augljós og verulegur hagsmunaárekstur, persónulegir hagsmunir ráðherrans gengu þvert á þá hagsmuni sem hann var að verja í samningunum við kröfuhafa sem æðsti embættismaður ríkisins. (Og munum að fjárhagur konu hans er vissulega hans hagsmunir líka, hvað sem líður séreignum og kaupmálum.)

En Framsóknarfólkið vill að við trúum því að Sigmundur hafi tekið þjóðarhagsmuni fram yfir eigin hagsmuni og látið sig engu varða hvort hann og kona hans yrðu einhverjum tugum eða hundruðum milljóna ríkari eða fátækari.

Nú ætla ég alls ekki að halda því fram að Sigmundur hafi reynt að haga samningum þannig að kona hans myndi halda eftir meiri eignum en ella. Reyndar held ég að það sé orðum aukið að hann hafi sjálfur rissað upp þær leiðir sem farnar voru, en hann var auðvitað í forsvari fyrir þá ríkisstjórn sem bar ábyrgð á samningunum.

 

TVENNT skiptir hér mestu máli:

í fyrsta lagi, ef kjörinn fulltrúi eða embættismaður er vanhæfur vegna hagsmunaáreksturs skiptir ekki máli hvort viðkomandi beitir sér í eigin þágu, hagsmunaáreksturinn er til staðar hvort sem hann veldur óeðlilegri afgreiðslu eða ekki. Viðkomandi nýtur ekki óskoraðs trausts til verkefnisins. Sér í lagi ef hann hefur vísvitandi leynt hagsmunum sínum. 

Í öðru lagi, forsætisráðherra hélt þessum persónulegu fjárhagslegu hagsmunum sínum leyndum. Hann gaf ekki samstarfsfólki sínu, kjósendum sínum eða okkur umbjóðendum sínum kost á að meta hvort þessi hagsmunaáresktur myndi að okkar mati valda vanhæfi ráðherrans til að leita til lykta eitt stærsta fjárhagslega uppgjörsmál þjóðarinnar fyrr og síðar.

 

vulture-man

Vulture Man - með vængi úr lógói FRamsóknarflokksins

 


Aðstoðað við efnahagsglæpi

Nýfallinn Hæstaréttardómur í Al Thani-málinu er stórmerkilegur. Dómurinn er vel skrifaður og skýr þó svo málið sjálft sé flókið. Að mati þess sem hér skrifað fer ekkert á milli mála að brot voru framin. 

Eitt sem vekur athygli þegar svona dómur er lesinn er að höfuðpaurarnir þurfa marga dygga aðstoðarmenn til að útfæra þessi afbrot. Það er ansi hreint merkilegt að lesa hvernig stærstu og "virtustu" lögfræðistofur landsins lögðu sig í lima við að aðstoða við þetta.

Hér er gripið niður í texta dómsins. EH var forstöðumaður lögfræðisviðs Kaupþings en BÓ var og er enn meðeigandi og lögmaður á stærstu lögmannsstofu í Reykjavík:


Í málinu liggur fyrir endurrit af hljóðupptöku af símtali milli EH og BÓ, sem eftir upphafsorðum þess fór greinilega fram á sama tíma og EH sendi tölvubréfið með skipuritinu, en hann tók einnig fram að hann hafi reynt að ná í BÓ daginn áður. Fljótlega í samtalinu kvaðst EH óttast að lán, sem hann nefndi „profit participating lán“ og fæli í sér að lánskjörin tækju mið af þróun á verðmæti hluta í Kaupþingi banka hf., kynni að mati skattyfirvalda að fela í sér duldar arðgreiðslur. Hann hafi leitað álits hjá tveimur nafngreindum Íslendingum, sérfróðum á sviði skattaréttar, sem hafi lýst þeirri skoðun að hjá þessu mætti komast með því að hafa lánið í formi skuldabréfs og kjörin í formi vaxta. Hann lýsti því að ef „við lendum í einhverju veseni með þetta, að skattayfirvöld verða nú að þráskallast við eins og oft kemur upp sko ... þá er næsta í rauninni girðing ... hvar getum við sett þá upp félag ... ég viljandi ... setti það hvergi upp ... sagði bara að þeir myndu sko setja þetta inn sem equity inn í félagið en það er útfærsluatriði að þessar 300 milljónir sem þeir koma með saman, 150 og 150, að það geti verið í formi sko eigin fjár og ... hérna hluthafaláns ... til þess að fá vaxtagjöld ... og við tékkuðum á því með Kýpur að það gengur alveg … að koma inn með bara stórt hluthafalán, að það yrði frádráttarbært frá öllum vaxtatekjum.“ EH vísaði síðan til upplýsinga í tölvubréfi frá endurskoðunarfyrirtækinu á Kýpur og sagðist þá um leið senda það áfram til BÓ. Sagði þá BÓ að hann væri „aðeins búinn að nefna það við Óla sko að það yrði Kýpur félag fyrir ofan, þannig að ... hann veit af slíkum möguleikum“. Hann bætti því svo við að það væri „annað sem að þyrfti að tékka sig af líka sko í þessu sko, ég var nú að ræða við … Óla sko um að ... mér sýndist vera í lagi ... en það var sko, hvort að það væri sko flöggun á honum“. Sagði þá EH að þetta væri „næsta atriði af því hann er náttúrulega þarna inni í Eglu og allt það ... þá kom einmitt þetta sko, í mínum huga ókei, náttúrulega uppleggið frá Magga var að segja eitthvað ... hann má ekki flagga, við viljum bara að Qatarinn flaggi og enginn annar, hann er bara einn í þessu sko.“ Þessu játti BÓ og sagði þá EH að þess vegna yrði þetta að verða í formi láns. Hann bætti því svo við að hann vildi ræða þetta við BÓ „áður en við klárum þetta, því að þeir eru búnir að samþykkja þetta Ólafur og, og [MAT] og þetta er bara go“. Lýsti EH eftir þetta að MAT ætti „Q Icelandic“ að fullu og hann væri búinn að taka þar stóra fjárfestingu í Alfesca hf., en ef hann tæki „síðan stöðu í bankanum ... og á síðan félagið ... 50% á móti Ólafi ... er eitthvað hætta á að við getum sagt að það eru bein eignatengsl þarna á milli, af því þetta er afkomutengt“. Sagði þá BÓ að „það er hætta á því sko ... ég þarf að þræða mig aðeins í gegnum það ... ég sagði bara við Óla að mér sýndist að þetta þarna ... sko hann var þá ekki búinn að ræða, við vorum þá ekki búnir að ræða sko arðgefandi lánið ... að það yrði beint, beint arðgefandi sko, ef það væri alveg skilyrði að það væri arðgefandi sko“. Skaut þá EH inn orðunum „já, sem það og er sko, af því að mér skilst að Ólafur náttúrulega á að fá sinn part í kökunni sko“. Játti BÓ því og sagði „hann, hann þarf að fá sinn part af, af upside-inu sko.“ Í framhaldi af þessu ræddu þeir um ýmis atriði varðandi útfærslu á viðskiptunum í tengslum við félög á Kýpur og Bresku Jómfrúareyjunum, en um það sagði svo BÓ að þetta væri „útfærsluatriði en grundvallarspurningin er náttúrulega bara fyrst og fremst ... er flöggun þarna eða ekki, sko.“ Hann bætti því síðar við að þá væri „spurning sko hvernig strúktúrinn hjá honum persónulega er fyrir ofan en það er auðvitað hans mál sko ... ég var ekkert búinn að ræða sko, hann var að spyrja um það hann Óli sko“. Eftir þetta tóku við nokkuð langar samræður um skattaleg atriði, en undir lok samtalsins sagðist BÓ „tékka á, á þessu út frá kauphallarmálum“ og aðeins síðar sagði EH að það væru þá „þrjú atriði, það er eignarhaldið, flöggunin, síðan númer tvö er, er arðstekjur ... og þrjú er, er skattur á vexti.“

 

Dómurinn í heild sinni er HÉR.


Kynþáttahyggja á moggabloggi

Það eru hinsvegar mannréttindi kynborinna Íslendinga að halda landi sínu hreinu

 

Halldór Jónsson, Moggabloggari, 8.10.2014. 


Um bloggið

Pælingar

Höfundur

Skeggi Skaftason
Skeggi Skaftason
Frjálslyndur og fróðleiksþyrstur lífsspekingur.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • vulture-man
  • hetjur
  • dracula
  • Screen shot 2013-09-22 at 3.47.46 PM
  • Screen shot 2013-09-22 at 3.38.15 PM

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband