17.3.2016 | 22:27
Framsókn viðurkennir hagsmunaárekstur
Margir talsmenn Framsóknarflokksins hafa í dag og í gær viðurkennt að vissulega var forsætisráðherra í bullandi hagsmunaárekstri þegar ríkisstjórn hans hafði umsjón með samningum við kröfuhafa þrotabúa bankanna samtímis því að eiginkona hans átti kröfur í þrotabú bankanna þriggja uppá hálfan milljarð. Kröfurnar námu umtalsverðum hluta af uppgefnum eignum þeirra hjóna svona hér um bil þriðjungi af skráðum eignum þeirra.
Þetta sagði t.d. aðstoðarmaður ráðherrans Jóhannes Þór Skúlason í frétt mbl í gær:
Sé ennfremur skoðuð sú stefna sem Sigmundur Davíð hafi keyrt gagnvart kröfuhöfum bankanna, þá er lítið greitt upp í almennar kröfur og það eigi það við um kröfu hennar eins og annarra.
Þarna kallar Jóhannes Þór Sigmund Davíð höfund þeirrar stefnu sem lá að baki samningunum við kröfuhafana, meðal annars eiginkonu ráðherrans.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi flokksins í Reykjavík sagði þetta:
Sigmundur fór hins vegar í það að rýra eignir kröfuhafanna sem mest og þar með eiginkonu sinnar í leiðinni í almannaþágu. [...] Hann sagði nei við Icesave, hann lækkaði skuldir heimilanna og hann sótti fé til kröfuhafanna.
Líkt og Jóhannes Þór lýsir Guðfinna samningunum við kröfuhafa nánast sem persónulegri vegferð og sigurgöngu Sigmundar Davíðs.
Einn ötulasti talsmaður ríkisstjórnarinnar, bloggarinn og sögukennarinn Páll Vilhjálmsson, segir svo þetta:
Enginn gekk eins hart fram að leggja skatt á kröfuhafa föllnu bankanna og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins. [...] Eigum við ekki að þakka fyrir að eiga forsætisráðherra sem tekur hagsmuni ríkisins fram yfir persónulegan ábata?
Aftur er Sigmundi lýst sem hetjunni sem nánast eins síns liðs sótti peninga til kröfuhafa. (Reyndar er söguskoðun Páls eins og endranær broguð, það var jú bara kynntur skattur, en skatturinn kom ekki til framkvæmda því þess í stað stóð kröfuhöfum til boða uppgjör með svokölluðu stöðugleikaframlagi sem var mun hagstæðara en hinn boðaði skattur.)
Þessir stuðningsmenn Sigmundar Davíðs sjá og viðurkenna hið augljósa, að hér var á ferð augljós og verulegur hagsmunaárekstur, persónulegir hagsmunir ráðherrans gengu þvert á þá hagsmuni sem hann var að verja í samningunum við kröfuhafa sem æðsti embættismaður ríkisins. (Og munum að fjárhagur konu hans er vissulega hans hagsmunir líka, hvað sem líður séreignum og kaupmálum.)
En Framsóknarfólkið vill að við trúum því að Sigmundur hafi tekið þjóðarhagsmuni fram yfir eigin hagsmuni og látið sig engu varða hvort hann og kona hans yrðu einhverjum tugum eða hundruðum milljóna ríkari eða fátækari.
Nú ætla ég alls ekki að halda því fram að Sigmundur hafi reynt að haga samningum þannig að kona hans myndi halda eftir meiri eignum en ella. Reyndar held ég að það sé orðum aukið að hann hafi sjálfur rissað upp þær leiðir sem farnar voru, en hann var auðvitað í forsvari fyrir þá ríkisstjórn sem bar ábyrgð á samningunum.
TVENNT skiptir hér mestu máli:
í fyrsta lagi, ef kjörinn fulltrúi eða embættismaður er vanhæfur vegna hagsmunaáreksturs skiptir ekki máli hvort viðkomandi beitir sér í eigin þágu, hagsmunaáreksturinn er til staðar hvort sem hann veldur óeðlilegri afgreiðslu eða ekki. Viðkomandi nýtur ekki óskoraðs trausts til verkefnisins. Sér í lagi ef hann hefur vísvitandi leynt hagsmunum sínum.
Í öðru lagi, forsætisráðherra hélt þessum persónulegu fjárhagslegu hagsmunum sínum leyndum. Hann gaf ekki samstarfsfólki sínu, kjósendum sínum eða okkur umbjóðendum sínum kost á að meta hvort þessi hagsmunaáresktur myndi að okkar mati valda vanhæfi ráðherrans til að leita til lykta eitt stærsta fjárhagslega uppgjörsmál þjóðarinnar fyrr og síðar.
Vulture Man - með vængi úr lógói FRamsóknarflokksins
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2016 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2015 | 16:33
Enn er óvissa
Enn er óvissa um mörg stór mál í framtíð þjóðarinnar. Margir vilja umbylta stjórnarskránni, óvissa er um skian gjaldeyrismála til lengri tíma, og Icesave málið er enn óleyst. Það væri því einstaklega óábyrgt af Ólafi Ragnari Grómssyni að gefa ekki kost sér fimmtakjörtímabilið, næsta vor. Slík eigingjörn hegðun væri ólík þessum leiðtoga landsins og líkast því að foreldri myndi skilja eftir börnin sín eftir ein úti í óvissu.
Þjóðarhetjur, Jón og Ólafur.
17.2.2015 | 16:00
Aðstoðað við efnahagsglæpi
Nýfallinn Hæstaréttardómur í Al Thani-málinu er stórmerkilegur. Dómurinn er vel skrifaður og skýr þó svo málið sjálft sé flókið. Að mati þess sem hér skrifað fer ekkert á milli mála að brot voru framin.
Eitt sem vekur athygli þegar svona dómur er lesinn er að höfuðpaurarnir þurfa marga dygga aðstoðarmenn til að útfæra þessi afbrot. Það er ansi hreint merkilegt að lesa hvernig stærstu og "virtustu" lögfræðistofur landsins lögðu sig í lima við að aðstoða við þetta.
Hér er gripið niður í texta dómsins. EH var forstöðumaður lögfræðisviðs Kaupþings en BÓ var og er enn meðeigandi og lögmaður á stærstu lögmannsstofu í Reykjavík:
Í málinu liggur fyrir endurrit af hljóðupptöku af símtali milli EH og BÓ, sem eftir upphafsorðum þess fór greinilega fram á sama tíma og EH sendi tölvubréfið með skipuritinu, en hann tók einnig fram að hann hafi reynt að ná í BÓ daginn áður. Fljótlega í samtalinu kvaðst EH óttast að lán, sem hann nefndi profit participating lán og fæli í sér að lánskjörin tækju mið af þróun á verðmæti hluta í Kaupþingi banka hf., kynni að mati skattyfirvalda að fela í sér duldar arðgreiðslur. Hann hafi leitað álits hjá tveimur nafngreindum Íslendingum, sérfróðum á sviði skattaréttar, sem hafi lýst þeirri skoðun að hjá þessu mætti komast með því að hafa lánið í formi skuldabréfs og kjörin í formi vaxta. Hann lýsti því að ef við lendum í einhverju veseni með þetta, að skattayfirvöld verða nú að þráskallast við eins og oft kemur upp sko ... þá er næsta í rauninni girðing ... hvar getum við sett þá upp félag ... ég viljandi ... setti það hvergi upp ... sagði bara að þeir myndu sko setja þetta inn sem equity inn í félagið en það er útfærsluatriði að þessar 300 milljónir sem þeir koma með saman, 150 og 150, að það geti verið í formi sko eigin fjár og ... hérna hluthafaláns ... til þess að fá vaxtagjöld ... og við tékkuðum á því með Kýpur að það gengur alveg
að koma inn með bara stórt hluthafalán, að það yrði frádráttarbært frá öllum vaxtatekjum. EH vísaði síðan til upplýsinga í tölvubréfi frá endurskoðunarfyrirtækinu á Kýpur og sagðist þá um leið senda það áfram til BÓ. Sagði þá BÓ að hann væri aðeins búinn að nefna það við Óla sko að það yrði Kýpur félag fyrir ofan, þannig að ... hann veit af slíkum möguleikum. Hann bætti því svo við að það væri annað sem að þyrfti að tékka sig af líka sko í þessu sko, ég var nú að ræða við
Óla sko um að ... mér sýndist vera í lagi ... en það var sko, hvort að það væri sko flöggun á honum. Sagði þá EH að þetta væri næsta atriði af því hann er náttúrulega þarna inni í Eglu og allt það ... þá kom einmitt þetta sko, í mínum huga ókei, náttúrulega uppleggið frá Magga var að segja eitthvað ... hann má ekki flagga, við viljum bara að Qatarinn flaggi og enginn annar, hann er bara einn í þessu sko. Þessu játti BÓ og sagði þá EH að þess vegna yrði þetta að verða í formi láns. Hann bætti því svo við að hann vildi ræða þetta við BÓ áður en við klárum þetta, því að þeir eru búnir að samþykkja þetta Ólafur og, og [MAT] og þetta er bara go. Lýsti EH eftir þetta að MAT ætti Q Icelandic að fullu og hann væri búinn að taka þar stóra fjárfestingu í Alfesca hf., en ef hann tæki síðan stöðu í bankanum ... og á síðan félagið ... 50% á móti Ólafi ... er eitthvað hætta á að við getum sagt að það eru bein eignatengsl þarna á milli, af því þetta er afkomutengt. Sagði þá BÓ að það er hætta á því sko ... ég þarf að þræða mig aðeins í gegnum það ... ég sagði bara við Óla að mér sýndist að þetta þarna ... sko hann var þá ekki búinn að ræða, við vorum þá ekki búnir að ræða sko arðgefandi lánið ... að það yrði beint, beint arðgefandi sko, ef það væri alveg skilyrði að það væri arðgefandi sko. Skaut þá EH inn orðunum já, sem það og er sko, af því að mér skilst að Ólafur náttúrulega á að fá sinn part í kökunni sko. Játti BÓ því og sagði hann, hann þarf að fá sinn part af, af upside-inu sko. Í framhaldi af þessu ræddu þeir um ýmis atriði varðandi útfærslu á viðskiptunum í tengslum við félög á Kýpur og Bresku Jómfrúareyjunum, en um það sagði svo BÓ að þetta væri útfærsluatriði en grundvallarspurningin er náttúrulega bara fyrst og fremst ... er flöggun þarna eða ekki, sko. Hann bætti því síðar við að þá væri spurning sko hvernig strúktúrinn hjá honum persónulega er fyrir ofan en það er auðvitað hans mál sko ... ég var ekkert búinn að ræða sko, hann var að spyrja um það hann Óli sko. Eftir þetta tóku við nokkuð langar samræður um skattaleg atriði, en undir lok samtalsins sagðist BÓ tékka á, á þessu út frá kauphallarmálum og aðeins síðar sagði EH að það væru þá þrjú atriði, það er eignarhaldið, flöggunin, síðan númer tvö er, er arðstekjur ... og þrjú er, er skattur á vexti.
Dómurinn í heild sinni er HÉR.
Löggæsla | Breytt 7.4.2015 kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2014 | 20:23
Svar til Valdimars Jóhannessonar
Valdimar Jóhannesson heitir bloggari sem hefur gert margt og merkilegt á lífsleiðinni, en er nú helst upptekinn við að vara okkur við Íslam, sem hann segir vera stórhættulega hugmyndafræði sem snúist um mannvonsku og heimsyfirráð. Ég skrifaði stutt komment við nýjasta pistil Valdimars, en hann vill ekki birta kommentið þó svo oft áður hef ég kommenterað hjá honum og við skipst á orðsendingum í mesta bróðerni. En Valdimar gerði mér þann greiða að endursenda mér kommentið í tölvupósti, svo hér er það birt, í aðeins lengri útgáfu.
Valdimar hefur sagt fullum fetum að við þurfum að verjast innrás íslam hingað, sem sé "skipulagt jihad til þess að ná Íslandi undir íslam og sharíalög". Valdimar tekur mjög eindregna afstöðu í þrálátum átökum Ísraela og Palestínumanna, Ísraelsmenn eru góðir, sannleikurinn þeirra megin, Palestínumennirnir stjórnað af ofsatrúuðum hryðjuverkamönnum.
Valdimar hefur í fjölda bloggpistla rifjað upp sögu Íslam, sem hann telur vera samfellda árás á kristni.
Valdimar telur ekki að Íslam sé eins og hver önnur trúarbrögð, heldur beri að BANNA Íslam, sem sé einhverskonar ofbeldishugmyndafræði.
====
Valdimar lítur ekki til þess að í heiminum búa nú svona ca. 1400 milljónir múslima. Tæplega einn og hálfur milljarður. Varla eru þeir allir VONDIR? Ofurseldir ILLRI hugmyndafræði?
Og stóra spurningin er: HVAÐ vill Valdimar? Hver er LAUSNIN? Lýsa yfir stríði við alla múslima??
Því Valdimar virðist telja útilokað að lifa í sátt og samlyndi með múslimum.
Reyndar held ég að ein rót öfgafullrar umræðu margra/sumra múslima í garð Vesturlanda er að þeir UPPLIFA eins og Vesturlöndin SÉU nú þegar í stríði við íslam og múslímsk lönd. Þeir heyra raddir öfgamanna eins og Valdimars, hatrið og óvildina. Og margir í hinni fylkingunni, hinum megin við víglínu Valdimars sem aðskilur okkur "kristnu Vesturlandabúana" frá "hinum" tala NÁKVÆMLEGA EINS og Valdimar. Hatrið er gagnkvæmt, eiturpílurnar ganga í báðar áttir.
Það má reyndar til sanns vegar færa að á liðnum 100 árum, og þarf ekki að fara svo langt aftur, hafa Vesturlönd (+Sovét) ráðist inn í, steypt af stóli valdhöfum, stutt grimma einræðishöfðingja, og almennt haft miklu meiri afskipti af ríkjum múslima, heldur en ríki múslima hafa haft gagnvart Vesturlöndum. Ungur róttækur reiður öfgamaður frá Írak upplifir að Vesturlönd séu í stríði við sig. Hefur hann rangt fyrir sér??
Er Valdimar ósammála því?
(Og hvaðan kemur þetta tal Valdimars um að múslímar séu að leggja undir sig heiminn? Hvað eru margir íslamskir trúboðar sem banka á dyrnar hjá okkur? Eða annars staðar í heiminum? Voru það múslímskir trúboðar sem fóru um allan heim á 19. og 20. öld? Voru það múslímsk ríki sem skiptu á milli sín heimsálfum á 19. öld, eins og að útdeila kökusneiðum, og bjuggu til landamæri með reglustiku?)
Hættan er sú að við leyfum Valdimar og skoðanasystkinum hans hér OG í ríkjum múslima að magna upp ótta, hatur og stríðstal.
Múslímar eru FÓLK EINS OG VIÐ. Þeir hafa í aðalatriðum sömu þrár, vonir og væntingar, þrá hamingju og ást og vilja lifa í sátt og samlyndi með fjölskyldu og vinum, sjá börn sín vaxa úr grasi, lifa við öryggi og eygja von um betri framtíð.
En við skulum ekki banna Valdimar. Nei, svörum honum fullum hálsi. Því hann hefur rangt fyrir sér. Friðurinn og vináttan þarf að sigra hatrið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.12.2014 kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.10.2014 | 13:06
Kynþáttahyggja á moggabloggi
Það eru hinsvegar mannréttindi kynborinna Íslendinga að halda landi sínu hreinu
Halldór Jónsson, Moggabloggari, 8.10.2014.
9.9.2014 | 13:53
Málpípa Moggans vill trúarlögreglu
Páll Vilhjálmsson, einn einarðasti stuðningsmaður afturhalds-þjóðernis-Moggaklíku stjórnarflokkanna vill krefja þingmenn um skýringar, ef þeir mæta ekki í messu hjá lútersk-evangelísku trúfélagi áður en Alþingi er sett. Um þessa þingmenn skrifar Páll:
Þeir þingmenn sem hafna siðvenjum alþingis Íslendinga hljóta að gera grein fyrir siðleysi sínu.
Það er löng hefð fyrir því að þingmenn (flestir), Forseti og biskup mæti til sérstakrar messu í Dómkirkjunni rétt á undan þingsetningu. Þessi hefð á rætur til að rekja þess tíma þegar ekki ríkti trúfrelsi og kristni var skilgreind af ríkisvaldinu sem hin lögboðna trú þegna þessa lands.
Síðan hefur margt breyst. Nú ríkir hér trú- og skoðanafrelsi. Mönnum er frjálst að hafa hvaða trúarlegu skoðanir sem þeir kjósa og haga lífi sínu í samræmi við það.
Það er ekki hægt að skylda neinn til að taka þátt í trúarlegum athöfnum.
Þess vegna vekur það óhug þegar Páll Vilhjálmsson atvinnubloggari leggur beint og óbeint til sérstaka trúarskoðanalögreglu.
Páll, ef þú vilt búa í svoleiðis ríki ættirðu að flytja til Íran.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2012 | 16:43
Morðingjar í menntaskóla!?
Ég horfði í vikunni á svokallaðan árshátíðarannál Menntaskólans við Sund frá liðnu vori. Tæplega hálftíma myndband með ýmsum atriðum, eftir myndbandaklúbb skólans.
Þvílíkt og annað eins.
Mér rann kallt vatn milli skinns og hörunds.Myndin byrjar á löngu atriði þar sem óeinkeinnisklæddir lögreglumenn rannsaka morð. Í ljós kemur að fórnarlambið er jarðfræðikennari menntaskólans að því er virðist. Svo er sýnd árásin á kennarann, þar sem grímuklæddir menn ryðjast inn og ráðast á manninn og brjóta allt og bramla.
Ég bara spyr, er þetta í lagi?
Myndbandið frá Menntaskólanum við Sund er ofbeldismyndband. Segjum hlutina eins og þeir eru. Þarna er morð og ofbeldi notað til þess að auglýsa skemmtun. Eru ekki einhverjar viðvörunarbjöllur farnar að hringja? Við upplifðum hér hið svokallaða hrun. Hvað er þetta þá? Morðhrun?
Hvað finnst okkur um það að ungum karlmönnum í menntaskóla finnist það bara í lagi að MYRÐA kennarana sína, að grínast með mannsmorð? Verðum við ekki að fara að taka í taumana? Eiga jarðfræðikennarar að þurfa að búa við stöðugum ótta um líf sitt? Bera ungir karlmenn nú til dags enga virðingu fyrir lífinu?!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2012 | 21:19
Til varnar bangsapabba
Bangsapabbi varð fyrir ósanngjarnri gagnrýni í fjölmiðlum í dag. Feministi segir að
það skírskoti til raunveruleikans hvernig Bangsapabbi njóti mikillar lýðhylli án þess að hafa nokkuð til þess unnið annað en að vera karlkyns og kominn yfir miðjan aldur.
Þetta er ekki rétt.
Þótt það komi ekki fram í leikverkinu þá gegndi Bangsapabbi fjölmörgum trúnaðarstöðum í Hálsakógi um árabil áður en sagan gerist sem sagt er frá í leikritinu. Hann var í mörg ár formaður sóknarnefndar, sat einnig í kjörstjórn í Hálsaskógarkjördæmi, var á yngri árum virkur í Hjálparsveit bjarna, sat í hreppsnefnd, í stjórn Skógræktarfélagsins, var formaður Samtaka berklasjúkra Bjarndýra SBSB, og svo mætti lengi telja.
Það er því rangt að álykta sem svo að Bangsapabbi hafi verið í leiðtogahlutverki í Hálsaskógi BARA af því hann var karlkyns og kominn yfir miðjan aldur.
Dægurmál | Breytt 17.10.2012 kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2012 | 20:59
Öfgafeministi prumpar
Öfgafeministi leysti hressilega vind í strætó í morgun, í vagni á leið 6, Hlemmur-Spöng.
- Ég var bara með mikla ólgu í maganum og gat ekki haldið þessu inni. Svo kom þessi brakandi fretur og mikil lykt sem fyllti fljótt allar aftari sætaraðir vagnsins. Allir farþegar litu vandræðalega út um glugga, allir uppteknir af að þykjast ekki taka eftir neinu. Þetta er svo mikið TABÚ.
Feministinn skrifaði bloggpistil um reynslu sína og velti því fyrir sér hvernig heimurinn væri ef karlar prumpuðu, en ekki aðallega konur eins og raunin er. Hún vitnaði í skrif frægs feminista og aðgerðarsinna, Gloriu Steinem:
- Ef prump vær hluti af reynsluheimi karla myndi prumpulykt ekki vera álitin vond og ógeðsleg, heldur miklu frekar aðlaðandi og karlmannleg.
- Hávær prump væru talin skemmtileg umhverfishljóð, eins og fossaniður eða fuglasöngur.
- Góðir prumparar kæmu fram í Hörpu og myndu halda prumputónleika, heilu prumpuóperurnar væri skrifaðar og fluttar fyrir fullu húsi.
- Hægri vængur stjórnmálanna og bókstafstrúarmenn myndu túlka prump sem ótvíræða sönnun þess að einungis karlar gætu þjónað Guði og þjóð í stríði.
- Tölfræðilegar rannsóknir myndu sýna að karlar sem prumpa gengi betur í íþróttum og ynnu til fleiri ólympíuverðlauna.
Steinem er fyndin kona. En svona er heimurinn ekki. Heimurinn er þannig að prump er kvenna og aðeins kvenna. Það er mín reynsla að prump er jaðarsettari sem umræðuefni í kynjablönduðum hópum en kynlíf, meltingartruflanir og jafnvel sjálfsfróun.
Prumpið er jaðarsett af feðraveldinu. Það er talið ógeðslegt, óhreint, eitthvað sem maður talar ekki um. Því að við erum allar búnar að læra að beygja okkur undir þá hugmynd að karlar eigi ekki að þurfa að hlusta á prumputal.
Sex og hálfri mínútu eftir að feministinn birti bloggpistil sinn birti dv.is efni hans sem aðalfrétt á netsíðu sinni og var það mest lesna frétt dagsins.
Hamingjusami öfgafeministinn í strætó sem neitar að taka þátt í þögguninni.
Dægurmál | Breytt 22.8.2012 kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2011 | 11:55
Játning trúleysingja
Ég trúi ekki á Guð föður,
trúi því ekki að til sé almáttugur skapari himins og jarðar.
Ég trúi ekki á Jesú Krist, að hann sé Guðs einkason, Drottin vorn,
trúi því alls ekki að hann hafi verið getinn af heilögum anda,
en vel mögulegt að hann hafi verið fæddur af Maríu
en þá hefur hún ekki verið mey,
hann var hugsanlega píndur á dögum Pontíusar Pílatusar,
krossfestur, dáinn og grafinn,
en ég trúi ekki að hann hafi stigið niður til heljar,
mér finnst mjög ósennilegt að hann hafi risið á þriðja degi aftur upp frá dauðum,
ég trúi því ekki að hann hafi stigið upp til himna,
hvað þá að hann sitji við hægri hönd Guðs föður almáttugs,
og muni þaðan koma, að dæma lifendur og dauða.
Ég trúi ekki á heilagan anda, skil ekki hvernig trúa megi á heilaga almenna kirkju,
veit ekki hverjir tilheyra samfélagi heilagra,
trúi ekki á guðlega fyrirgefningu syndanna,
trúi ekki á upprisu mannsins né eilíft líf
og finnst það satt að segja ekki eftirsóknarvert.
Trúmál | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Pælingar
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar